TADDS
Sunday, October 04, 2009
  SUNNUDAGSHUGLEIÐING
Það skiptir miklu máli að ungliðasamtök stjórnmálaflokkanna séu vel skipuð, því þar er grunnur lagður að pólitísku starfi framtíðarinnar. Ungir Sjálfstæðismenn völdu sér nýlega foringja og heitir sá Ólafur Örn Nielsen.

Það vill svo skemmtilega til að TADDS hefur einu sinni hitt Ólaf og lék þá með honum golfhring austur á Hellu. Þetta er kornungur maður, ríflega tvítugur, harðduglegur og vann fyrir sér meðfram náminu sem einskonar tölvugúrú á mogganum. Hann er háttvís, fastur fyrir, hæglátur, vel máli farinn, hugsar öll mál út í æsar, rökvís og hefur skýra og afar skilmerkilega afstöðu. Ekki fóru skoðanir vefritsins og Ólafs saman í mörgum veigamiklum málum, en TADDS gladdist mjög að eiga dagstund með svo vel gefnum, háttvísum og vönduðum æskumanni. Allt í fari þessa drengs bar vitni um góðan stofn og gott uppeldi.

Hjá Ólafi fara líka saman atgervin andleg og líkamleg, því hann er tveir metrar á hæð, afrenndur að afli og jafnoki Gunnars á Hlíðarenda að fræknleik. Hann er prúður leikmaður á golfvelli, dræfar firnalangt og járnahöggin eru há, löng og hárnákvæm. TADDS beið ósigur en þetta var góður dagur. Megi Drottinn gefa oss fleiri slíka æskumenn og þá þurfum við ekki að kvíða neinu, Íslendingar.
 


<< Home
KRISTILEGT VEFRIT UM TAÐREYKT MATVÆLI OG MARGRÉTI TADDSER

September 2007 / September 2009 / October 2009 /


Powered by Blogger